Fréttir
Undirbúningur hafinn á Hrafnseyri
12.07 2010
Nýlega fór hópur sérfræðinga vestur á Hrafnseyri við Arnarfjörð til að undirbúa hönnun og gerð nýrrar sýningar um Jón Sigurðsson forseta. Þetta voru þau Sigríður Sigþórsdóttir og Ene Cordt-Andersen frá Basalt arkitektum sem munu hanna sýninguna; Hringur Hafsteinsson og Kristín Eva Ólafsdóttir frá Gagarín sem hanna margmiðlunarefnið, Guðjón L. Sigurðsson lýsingarráðgjafi og Björn G. Björnsson verkefnisstjóri afmælisnefndar. Valdimar J. Halldórsson staðarhaldari á Hrafnseyri tók á móti hópnum og fræddi um margvísleg málefni og fundað var með byggingastóra verkefnisins og fleirum. Hönnun sýningarinnar lýkur fyrir áramót og þá tekur framleiðslan við. Uppsetning á Hrafnseyri hefst í byrjun maí 2011 og sýningin verður formlega opnuð á Hrafnseyrarhátíð 17. júní 2011, þegar 200 ár verða liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar.