Vísindastörf

Svíþjóðarferðin 1841

Sumarið 1841 fór Jón Sigurðsson ásamt Ólafi Pálssyni guðfræðinema til Uppsala og Stokkhólms á vegum Árnasafns og Fornfræðafélagsins. Tilgangurinn var að rannsaka og skrá íslensk handrit sem varðveitt voru á söfnum í þessum borgum. Vel var tekið á móti þeim og fengu þeir rúman aðgang að söfnunum og góða vinnuaðstöðu. Ferðin tók rétta þrjá mánuði og var afrakstur hennar heilmikill, þeir fundu mörg gömul íslensk handrit sem ekki var vitað um, skrifuðu upp merk handrit og Jón tók saman ítarlega skrá yfir þau. Sú skrá var grundvöllur að Förteckning öfver Kongl. Bibliothekets i Stockholm Isländska Handskrifter sem kom út árið 1848. Í ferðinni hittu þeir jafnframt tignarfólk og fyrirmenni og sóttu ýmsar veislur og viðburði sem sagt er frá í ferðabók sem Ólafur hélt og er varðveitt í handritasafni Landsbókasafns.