Einkahagir

Heimilisfólk og handritaarfur

Á uppvaxtarárum Jóns bjuggu á Hrafnseyri um tuttugu manns: ættmenni, foreldrar, systkini, föðurafi og frænkur ásamt vinnufólki og nokkrum öðrum. Í þessum hópi voru einstaklingar sem þekktir voru fyrir lærdómsþekkingu sína og fróðleiksáhuga og áttu þeir jafnframt í fórum sínum gömul handrit sem gengið höfðu mann fram af manni á milli kynslóða, allt frá upphafi átjándu aldar og jafnvel fyrr. Þetta fræða- og handritaumhverfi hefur eflaust kveikt áhuga Jóns á íslenskum fræðum sem fylgdi honum alla ævi.

Meðal heimilisfólks á Hrafnseyri á uppvaxtarárum Jóns var Markús Eyjólfsson, uppgjafaprestur frá Söndum í Dýrafirði. Markús, sem þá var kominn á sjötugsaldur, var margfróður og jafnframt afbragðs góður skrifari. Eftir hann eru varðveitt þó nokkur handrit, annálar, sálmar, kvæði og fleira, sem öll bera hönd hans fagurt vitni. Að auki birtist á prenti ritgerð eftir hann í Ritum Lærdómslistafélagsins árið 1781 og einnig þýðing á stuttri ritgerð um endurlífgun í Minnisverðum tíðindum árið 1803. Jón átti sjálfur nokkur handrit sem Markús skrifaði með eigin hendi, þar á meðal Grammatica Islandica sem hann skrifaði upp um 1775. Talið er sennilegt að Markús hafi fyrstur vakið áhuga Jóns á íslenskum fræðum.