Stjórnmálaþátttaka

Kröfumál

Meginhugmyndir Jóns Sigurðssonar um samband Íslands og Danmerkur komu fram í ritgerð hans, „Hugvekja til Íslendinga“, sem birtist í Nýjum félagsritum árið 1848. Í ritgerðinni færði hann rök fyrir því að Íslendingar ættu að fá aukna innlenda sjálfsstjórn og þar á meðal innlent löggjafarþing. Hann taldi að með Gamla sáttmála hefðu Íslendingar gengið Noregskonungi og síðar Danakonungi á hönd. Íslendingar ættu því í raun að vera óbundnir af ákvörðunum danska þingsins og gætu farið fram á aukna sjálfsstjórn undir Danakonungi í stað þess að vera eins og hvert annað hérað í danska konungsveldinu. Önnur meginhugmynd Jóns fólst í fjárhagslegri stöðu Íslands gagnvart Danmörku en hann taldi að Íslendingar ættu skuldakröfu á hendur Dönum, meðal annars vegna hagnaðar þeirra af einokunarversluninni í gegnum aldirnar. Jón áleit að Ísland væri því ekki fjárhagslegur baggi á Dönum, heldur hefðu Danir þvert á móti auðgast á sambandi þjóðanna í áranna rás. Jón skrifaði ítarlega ritgerð um þessi efni í Ný félagsrit árið 1862. Þessar kröfur Jóns voru áberandi í stjórnmálaumræðu Íslendinga fram eftir nítjándu öld.