Einkahagir

Hrafnseyri

Jón Sigurðsson fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð árið 1811 og ólst þar upp til 1829. Faðir Jóns, sr. Sigurður Jónsson, er sagður hafa verið vel að sér og kenndi hann mörgum piltum undir skóla. Nokkur handrit Sigurðar eru varðveitt í handritasafni Landsbókasafns Íslands.

Þórdís Jónsdóttir, móðir Jóns, er sögð hafa verið fróðleikskona. Hermt er að hún hafi kunnað nokkuð í latínu, grísku og hebresku og hafi aðstoðað við að kenna piltum sem Sigurður tók til kennslu á Hrafnseyri. Þórdís átti nokkur gömul handrit, þar á meðal sálmahandrit sem föðurafi hennar, Ásgeir Bjarnason, skrifaði um miðja átjándu öld en það handrit hefur bæði verið í eigu Þórdísar og dóttur hennar, Margrétar Sigurðardóttur. Ásgeir er sagður hafa verið merkismaður, bæði hægur og siðlátur og afar fær skrifari, jafnvel með eina fallegustu rithönd sem varðveist hefur frá átjándu öld. Hann skrifaði upp fjölmörg handrit og safnaði ýmsum fróðleik sem finna má í handritasafni Landsbókasafns. Jón Sigurðsson átti meðal annars nokkur handrit frá langafa sínum.

Föðurafi Jóns og alnafni, Jón Sigurðsson prestur á Hrafnseyri, er talinn hafa verið merkur maður og vel að sér í skólalærdómi enda kenndi hann sjálfur sonum sínum til skóla. Jón bjó á Hrafnseyri á uppvaxtarárum Jóns Sigurðssonar en lést árið 1821. Í handritasafni Landsbókasafns eru varðveitt nokkur handrit eftir hann. Þar eru einnig varðveittar dagbækur Jóns Ásgeirssonar, móðurafa Jóns frá árunum 17741780 (Lbs 2671 8vo).