Einkahagir

Nám í Kaupmannahöfn

Í ágústlok 1833 sigldi Jón Sigurðsson til Kaupmannahafnar með það markmið fyrir augum að þreyta inntökupróf í Kaupmannahafnarháskóla og naut hann aðstoðar Sveinbjarnar Egilssonar á Bessastöðum við undirbúning fyrir prófið. Jón tók prófið í desember 1833 og náði hann góðri fyrstu einkunn. Vorið og haustið eftir þreytti Jón próf í báðum hlutum annars lærdómsstigs og stóðst með ágætum þannig að honum var ekkert að vanbúnaði að hefja reglulegt nám við skólann. Jón valdi að leggja höfuðáherslu á málfræði og sögu, svokallað málfræðipróf hið meira. Fyrst um sinn leigði Jón sér herbergi úti í bæ en komst svo inn á Garð í byrjun febrúar 1834 þar sem hann bjó þar til í janúarlok 1838. Meðfram námi sínu tók Jón að sér ýmis aukaverkefni, m.a. að skrifa upp handrit. Árið 1835 fékk hann styrk frá Árnanefndinni til handritarannsókna og svo fór að hann lauk aldrei prófi þar sem aukaverkefnin voru farin að taka allan hans tíma.