Vísindastörf

Landshagir

Jóni var umhugað um að landsmenn gætu ávallt gengið að áreiðanlegum upplýsingum um málefni líðandi stundar og stöðu ýmissa málaflokka í þjóðarbúskapnum. Án þeirra væri vart hægt að ákveða hvaða stefnu ætti að taka í mikilvægum málum. Innan Hins íslenska bókmenntafélags beitti hann sér fyrir því að gefin voru út Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands, þar sem voru prentuð ýmis opinber tilmæli og einnig fyrir útgáfu á Skýrslum um landshagi á Íslandi. Þar með hófst regluleg útgáfa á hagskýrslum hér á landi og er óhætt að segja að hún hafi byrjað af krafti. Í skýrslunum var að finna manntöl, búnaðarskýrslur, skýrslur presta um gifta, fædda og dána, einnig verslunarskýrslur, verðlagsskrár, skýrslur um fjárhag landsins, embættismannatöl og svo mætti lengi telja. Sigurður Hansen, Arnljótur Ólafsson og fleiri unnu að skýrslunum sem voru gefnar út með styrk frá landsstjórninni. Skýrslurnar komu út í fimm þykkum bindum á árunum 1858–1875, alls ríflega 4.000 blaðsíður. Árið 1874 tók landsstjórnin við útgáfunni og birti skýrslurnar í Stjórnartíðindum.