Stjórnmálaþátttaka

Endurreisn Alþingis

Vorið 1840 bárust fréttir af því að Kristján VIII. Danakonungur hefði samþykkt að kanna grundvöll þess að setja á fót fulltrúaþing á Íslandi. Jón fagnaði þessum fréttum mjög og skrifaði ítarlega ritgerð um málið í fyrsta árgangi Nýrra félagsrita sem hann hleypti af stokkunum árið 1841. Ritgerðin bar titilinn „Um Alþing á Íslandi“ og telst hún vera fyrsta grundvallarritgerð hans um íslensk stjórnmál. Málið var rætt í sérstakri embættismannanefnd og loks tekið fyrir á þingi í Hróarskeldu árið 1842. Jón Sigurðsson og fleiri Hafnar-Íslendingar töldu reyndar að fyrirhuguð skipan Alþingis væri ekki nægilega vel höguð eftir íslenskum aðstæðum og komu athugasemdum sínum á framfæri við konung. Töluvert var fjallað um málið á þinginu í Hróarskeldu en niðurstaða þess var sú að endurreisa ætti Alþingi á Íslandi og gaf konungur út tilskipun þess efnis í mars 1843. Tveimur árum síðar kom þingið saman í nýreistu húsi Lærða skólans í Reykjavík.