Einkahagir

„Háttvirti herra“

Varðveist hafa rúmlega 8000 sendibréf tengd Jóni Sigurðssyni. Annars vegar er um að ræða ríflega 1300 bréf og bréfauppköst sem Jón skrifaði og hins vegar yfir 6600 bréf sem Jón fékk frá vinum, vandamönnum og öðrum sem erindi áttu við hann. Bréf þessi geyma ýmsa vitneskju um persónuna, fræðimanninn og stjórnmálamanninn Jón Sigurðsson. Mikið var um að hann fengi beiðnir um að snúast eitt og annað fyrir Íslendinga. Meðal þess sem hann keypti og sendi heim var: píanó, prentsmiðja, kjólar, hálsmen, hómópatalyf og gleraugu. Þá voru erindi líka af persónulegum toga, hann sótti oft um embætti fyrir menn og stóð í ýmsu stappi fyrir fólk gagnvart stjórninni auk þess að fá einstaka sinnum beiðnir eins og að hafa upp á dönskum barnsföður, dönskum kærasta eða jafnvel barnsmóður og barni. Síðastnefnda erindið leysti Jón með sóma og átti eftir að taka barnsmóður þessa íslenska embættismanns og barn hennar inn á sitt heimili um tíma.