Vísindastörf

Sagnfræðingurinn Jón

Þegar Jón hóf fræðastörf sín í Kaupmannahöfn um 1835 lágu fjölmargar merkar heimildir um sögu Íslands á skjalasöfnum þar í borg, tilskipanir, skjöl, fornbréf, stjórnvaldsfyrirmæli og margt fleira. Jón fékk snemma góða yfirsýn yfir þessar heimildir og réðst í að koma þeim á prent í vönduðum útgáfum með ítarlegum skýringum og inngangsköflum. Þekktustu útgáfurnar eru Lovsamling for Island og Íslenskt fornbréfasafn sem hafa nýst við grunnrannsóknir á sögu landsins æ síðan. Með vinnu sinni að þessum útgáfum og öðrum fræðastörfum öðlaðist hann umfangsmikla þekkingu á sögu Íslands og beitti henni markvisst í stjórnmálastarfi sínu. Kröfur Jóns um aukið sjálfsforræði Íslands voru þannig ávallt rækilega rökstuddar með sögulegum tilvísunum og sjást skýrt í ritgerðum hans í Nýjum félagsritum. Þessar kröfur mótuðu mjög anda sjálfstæðisbaráttunnar og söguskoðun Íslendinga á síðari hluta nítjándu aldar og fram eftir þeirri tuttugustu.