Stjórnmálaþátttaka

Þjóðfundarmálverk Gunnlaugs Blöndal, fullgert 1956. Hangir í Alþingishúsinu.

Stjórnmálaþátttaka

Þjóðfundurinn 1851

Við fall einveldisins í Danmörku 1848 fengu Íslendingar tækifæri til að leggja fram óskir um stjórnskipan Íslands. Undirbúningur var hafinn fyrir sérstakan þjóðfund þar sem ræða átti þessi mál. Kosningar til fundarins fóru fram sumarið 1850 en þjóðfundurinn sjálfur í júlí og byrjun ágúst ári síðar. Á fundinum var lagt fram stjórnarfrumvarp um stöðu Íslands innan danska ríkisins. Í stuttu máli var frumvarpið í engu samræmi við óskir Íslendinga sem mótaðar voru af hugmyndum Jóns Sigurðssonar um innlent stjórnvald, löggjafar-, dóms- og framkvæmdavald og fjárforræði. Frumvarpið var sett í nefnd sem skilaði af sér áliti tveimur vikum síðar. Meirihluti nefndarinnar taldi að fella ætti stjórnarfrumvarpið og leggja þess í stað fram frumvarp að stjórnarskrá fyrir Ísland þar sem lögð væri mikil áhersla á sjálfræði þjóðarinnar í samræmi við hugmyndir Jóns Sigurðssonar. Trampe greifi, fulltrúi konungs, sleit þá skyndilega fundinum við hávær mótmæli þingmanna.