Fréttir
Tvöþúsund gestir á Hrafnseyrarhátíð
24.06 2011
Það var mikið um dýrðir á Hrafnseyrarhátíð 17. júní s.l. þegar minnst var 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar forseta og opnuð ný sýning um líf hans og starf. Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, setti hátíðina og forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, lagði blómsveig að minningarsteini Jóns Sigurðssonar og flutti jafnframt hátíðarræðuna. David Gíslason flutti kveðjur frá Vestur-Íslendingum, Fjallkona Vestfjarða flutti Leiðarljóð Jónasar Hallgrímssonar til Jóns Sigurðssonar, formaður afmælisnefndar, Sólveig Pétursdóttir, flutti ávarp og afhenti Hrafnseyrarnefnd hina nýju sýningu. Elfar Logi Hannesson flutti einleik um Jón Sigurðsson, kórar, einsöngvarar og hljóðfæraleikarar fluttu nokkur alþýðu- og ættjarðarlög og formaður Hrafnseyrarnefndar, Eiríkur Finnur Greipsson, flutti ávarp. Að lokum opnaði forsætisráðherra sýninguna með aðstoð forseta Íslands.
Til baka í fréttir