Vísindastörf

Íslenskt fornbréfasafn

Af bréfi sem Jón sendi Sveinbirni Egilssyni á afmælisdaginn sinn árið 1837 má ráða að hann hafi snemma fengið þá hugmynd að safna saman íslenskum fornbréfum og skjölum. Á þessum tíma vann Jón fyrir Danska vísindafélagið við að taka saman slíkt safn varðandi danska sögu og ekki er ósennilegt að hugmyndin sé þaðan sprottin. Vitað er með vissu að Jón var byrjaður að viða að sér efni fyrir Íslenskt fornbréfasafn árið 1845. Hann skrifaði upp skjöl og í sumum tilfellum vann hann umfangsmikla rannsókn, t.d. varðandi Gamla sáttmála. Jón leitaði víða fanga við söfnun fornbréfanna, svo sem í safni Árna Magnússonar auk skjalasafna í Kaupmannahöfn og einnig fékk hann aðra til að afrita skjöl, bæði á Íslandi, Englandi og víðar. Jóni entist aðeins aldur til að sjá fyrsta bindi fornbréfasafnsins en það var gefið út í fjórum heftum á árunum 1857-1876. Að Jóni látnum tók Jón Þorkelsson við verkinu þar sem frá var horfið og nýtti hann að einhverju leyti safn Jóns til verksins.