Einkahagir

„Hjartkæri vin og bróðir“

Jón var alla tíð í virku bréfasambandi við sína nánustu vini heima á Íslandi. Bréf þeirra á milli skipta hundruðum og eru þau aðallega varðveitt á Landsbókasafni og á Þjóðskjalasafni. Innan þessa hóps má nefna læriföður Jóns, Steingrím Jónsson biskup í Laugarnesi, Sveinbjörn Egilsson, kennara við Bessastaðaskóla og síðar rektor Lærða skólans, Jens Sigurðsson, bróður Jóns og rektor Lærða skólans, Eirík Magnússon, bókavörð við Cambridge háskóla í Englandi, Pál Melsteð sagnfræðing og kennara við Lærða skólann og Jón Guðmundsson ritstjóra Þjóðólfs sem kallaði sig „skugga Jóns Sigurðssonar“. Þessir einstaklingar, ásamt öðrum vinum Jóns, voru framarlega á ýmsum sviðum í íslensku þjóðlífi á síðari hluta nítjándu aldar og í bréfum þeirra má sjá áhugaverða samfélagsmynd frá þessum tíma, bæði frá Íslandi og meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn.