Vísindastörf
„Úrval af mikilvægustu eldri og yngri lögum og tilskipunum, úrskurðum, fyrimælum og reglugerðum, Alþingisdómum og samþykktum, bréfum stjórnardeilda, skipulagsskrám og gjafabréfum, ásamt öðrum skjölum sem varpa ljósi á réttarfar og stjórnarfar á Íslandi á fyrri og seinni tímum.“Skoða á Bækur.is
Vísindastörf
Lovsamling for Island
Að frumkvæði Jóns Sigurðssonar var tekið til við að gefa út safn lagaheimilda sem tengdust Íslandi. Þetta heimildasafn kallast Lovsamling for Island og kom út í 21 bindi á árunum 1853–1889. Með þessari útgáfu var í fyrsta sinn heildstætt safnað saman eldri og yngri lögum, tilskipunum og þess háttar efni sem á einn eða annan hátt varpaði ljósi á réttarfar og stjórnarfar á Íslandi tímabilið 1096–1874. Útgáfa þessi bætti úr brýnni þörf sem skapast hafði til þess að hafa á einum stað þessar upplýsingar. Jón sá um að safna saman stærstum hluta þessa safns og eru frumrit Lovsamling for Island geymd í handritasafni Landsbókasafns Íslands. Jón fékk Oddgeir Stephensen skrifstofustjóra í íslensku stjórnardeildinni til liðs við sig sem lögfræðilegan ráðgjafa. Þeir félagar sóttu um styrk til kansellísins til útgáfunnar og fengu. Tilgangur þeirra félaga var að taka saman safn íslenskra lagaheimilda sem embættismenn gætu nýtt sér til að öðlast aukinn skilning og þekkingu á íslensku lagaumhverfi.
Áður en Lovsamling for Island var gefið út höfðu nokkrir menn tekið saman söfn af svipuðu tagi. Hér má sjá forsíðu fyrsta bindis laga- og reglugerðasafns Magnúsar Ketilssonar sýslumanns sem hann gaf út á árunum 1776-1787. Þá hafði Finnur Jónsson biskup tekið saman álíka safn og gefið út í verkinu Historia ecclesiastica Islandiæ sem inniheldur meðal annars ýmsar reglugerðir og lög er varða kirkjuna. Sonur hans, Hannes, safnaði einnig saman laga- og reglugerðarsafni sem í dag er varðveitt í handritasafni Landsbókasafns Íslands.