Vísindastörf
Eiginhandarrit Hallgríms Péturssonar að Passíusálmunum, skrifað árið 1659. Jón Sigurðsson fékk þetta handrit að gjöf árið 1856 og er það hluti af handritasafni Jóns sem varðveitt er í Landsbókasafni Íslands. Handritið er talið einn helsti dýrgripur safnsins (JS 337 4to).
Skoða á Handrit.isVísindastörf
Handritasöfnun Jóns Sigurðssonar
Á æviárum Jóns var ekki óalgengt að fólk ætti gömul handrit í fórum sínum, kvæðahandrit, ættfræðigögn, uppskriftir af Íslendingasögum, ýmiss konar sögulegan fróðleik og margt fleira. Jón taldi nauðsynlegt að forða þessum handritum frá glötun og hóf að safna handritum af miklum krafti. Hann var í bréfasambandi við fjölda fólks víða um land og bað það um að útvega sér ýmis handrit ef þau lægju á lausu. Þannig byggði Jón upp stórt handritasafn sem taldi rúmlega 1.300 handrit þegar allt er tínt til. Talið er að Jón hafi verið mestur íslenskra handritasafnara síðan Árna Magnússon leið. Yfirvöld keyptu handritasafn Jóns árið 1877 og var það falið Landsbókasafni til eignar og varðveislu. Í safninu eru fjölmargir dýrgripir, þar á meðal eiginhandarrit Hallgríms Péturssonar að Passíusálmunum.