Vísindastörf
Registr yfir Islands stiftisbókasafn. Videyar klaustri. Prentad á kostnað stiftisbókasafnsins 1842
Vísindastörf
Bækur og bókasöfn
Jón Sigurðsson vann stóran hluta starfsævi sinnar innan bóka-, handrita- og skjalasafna, aðallega að útgáfu ýmissa fornrita og heimildasafna og öðru því tengdu. Allt fræðastarf hans og heimildaútgáfa krafðist verulegrar þekkingar á uppbyggingu og forða bóka- og skjalasafna á Íslandi og í Danmörku enda var hann kröfuharður notandi og vissi hvernig ætti að standa að uppbyggingu þeirra og skráningu. Þessar kröfur koma skýrt fram í harðorðum ritdómi sem Jón skrifaði um skrá yfir bókaeign Stiftisbókasafnsins í Reykjavík sem kom út árið 1842. Í ritdóminum fann hann skránni allt til foráttu og skrifaði meðal annars: „Þetta registur, sem eg hefi í höndum ... er sú bók sem eg hefi séð ljótasta og verst af hendi leysta hingaðtil, og eg má fullyrða, að engin bók hefir komið lakari á prent á Íslandi þegar á allt er litið.“ Jón benti á að öll uppbygging og skráning væri illa unnin og jafnvel ætti að eyða öllu upplagi bókarinnar en halda einu eintaki eftir á bókasafninu til sýnis fyrir komandi kynslóðir.