Vísindastörf
Háskólabókasafnið. Hér var Árnasafn til húsa.
Vísindastörf
Í Árnasafni
Árið 1835 fékk Jón stöðu styrkþega við Árnasafn í Kaupmannahöfn. Stjórn safnsins taldi hann hæfastan umsækjenda enda hafði hann öðlast haldgóða þekkingu á skjölum og handritum við störf sín hjá Steingrími biskupi Jónssyni í Laugarnesi nokkrum árum áður. Stjórnin taldi einnig að Jón væri afar nákvæmur og hefði að auki mjög fallega og greinilega rithönd sem skipti töluverðu máli við uppskriftir handrita og annað innan safnsins. Jón stóð sig svo vel í þessu starfi að hann fékk aukagreiðslur fyrir elju, áhuga og iðjusemi og fékk hærri stöðu styrkþega innan safnsins árið 1839. Árið 1848 var Jón kjörinn ritari Árnasafns og gegndi þeirri stöðu til æviloka. Innan safnsins tók Jón saman ítarlega skrá yfir handrit þess, vann að útgáfu á Íslenskum annálum fram til 1430 og á Snorra-Eddu, vann að uppskriftum handrita og samanburði þeirra, samdi árlega skýrslu yfir starfsemi safnsins, hafði umsjón með styrkþegum og margt fleira. Páll Eggert Ólason telur að enginn hafi verið safninu annar eins nytjamaður og Jón Sigurðsson enda hafði hann bæði afar góða sýn yfir handrit þess sem og mikinn fræðilegan metnað.