Stjórnmálaþátttaka

Rit þess íslenska lærdómslistafélags kom út á árunum 1781-1798. Það hafði að geyma fjölda greina um ýmis hagnýt efni sem áttu að koma íslenskri alþýðu að gagni. Í daglegu tali var yfirleitt rætt um það sem „gömlu félagsritin“. Jón Sigurðsson hafði þetta tímarit í huga þegar hann setti tímarit sitt á stofn, og nefndi það því Ný félagsrit.

Skoða á Tímarit.is

Stjórnmálaþátttaka

Ný félagsrit

Árið 1841 leit tímaritið Ný félagsrit dagsins ljós. Tímaritið var gefið út undir forystu Jóns Sigurðssonar og birti hann þar sínar helstu stjórnmálaritgerðir í rúm þrjátíu ár eða allt til ársins 1873 þegar tímaritið hætti útgáfu og Andvari tók við hlutverki þess. Ný félagsrit höfðu þýðingarmiklu hlutverki að gegna við að kynna Íslendingum röksemdir Jóns um réttarstöðu Íslands og þar komu fram helstu rök sem voru leiðarljós í sjálfstæðisbaráttunni um nokkurra áratuga skeið. Útgáfa tímaritsins var nokkuð erfið um tíma, bæði vegna kostnaðar og lakra samgangna á Íslandi. Mörg dæmi voru um að tímaritið bærist seint til áskrifenda og í slæmu ástandi eftir langa flutninga frá Kaupmannahöfn þar sem það var prentað. Upphaflega kom það út í 1.000 eintökum en strax þremur árum síðar var sú tala komin niður í 600 en fór upp í 800 eintök nokkrum árum seinna. Forstöðunefnd tímaritsins lét þó ekki deigan síga og hélt útgáfunni áfram nánast óslitið í rúm þrjátíu ár.