Einkahagir

Nám og vinna í Reykjavík

Vorið 1829 kvaddi Jón Sigurðsson átthaga sína í Arnarfirði og hélt til Reykjavíkur. Faðir hans kom því svo fyrir að Gunnlaugur Oddsson dómkirkjuprestur tók Jón til stúdentsprófs. Hann spurði Jón í nokkra daga út úr stúdentsnámsefni þess tíma og þann 1. júní 1829 var stúdentspróf Jóns í höfn.

Í Reykjavík bjó Jón hjá föðurbróður sínum Einari og fjölskyldu hans við Klúbbgötu (síðar Aðalstræti) og þar kynntist hann tilvonandi konu sinni, Ingibjörgu dóttur Einars. Veturinn eftir stúdentsprófið vann Jón sem innanbúðarmaður í verslun P. C. Knudtzon í Hafnarstræti en Einar frændi Jóns var verslunarstjóri þar. Jón var fenginn til þess að færa inn í verslunarbækurnar allt sem þar átti að vera enda ungi maðurinn mikill listaskrifari.