Einkahagir

Í biskupsgarði

Vorið 1830, þegar Jón var tæplega nítján ára gamall, hóf hann störf sem skrifari hjá Steingrími Jónssyni biskupi. Biskupssetrið var þá í Laugarnesi og hafði að geyma veglegasta handrita- og bókasafn landsins. Jón hafði greiðan aðgang að þessu merka safni vegna starfa sinna og naut jafnframt góðs af návist Steingríms biskups sem var einn mesti lærdómsmaður landsins á þessum tíma. Sjálfur hafði Steingrímur miklar mætur á Jóni og sagðist hann frekar vilja hafa Jón einan að störfum fyrir sig en tvo aðra. Í Laugarnesi aðstoðaði Jón einnig fróða menn sem komu þangað til að skoða forn skjöl og bækur, svo sem Sveinbjörn Egilsson sem þá var kennari við Bessastaðaskóla og virtur fræðimaður. Samvistir Jóns við handritasafnið í Laugarnesi og samskipti hans við fræðimenn hafa eflaust styrkt áhuga hans á íslenskum fræðum.

Þegar Jón starfaði hjá Steingrími aðstoðaði hann Sveinbjörn Egilsson við lestur á Reykholtsmáldaga. Hluti máldagans er talinn frá árinu 1185 og er elsta varðveitta frumskjal sem til er á íslensku. Í máldaganum er að finna skrá yfir jarðeignir og gripi í eigu kirkjunnar í Reykholti í Borgarfirði. Hluti máldagans er afar illlæsilegur en Jón gat leyst úr torlesnum orðum og heillaði það Sveinbjörn mjög sem minntist á það í meðmælabréfi sem hann skrifaði til Árnasafns árið 1835.

Meðmæli Sveinbjarnar Egilssonar til Árnasafns vegna starfa Jóns að Laugarnesi (í íslenskri þýðingu):

„Um það er eg sannfærður, að herra cand. phil. Jón Sigurðsson … hefir náð ágætri æfingu í að lesa skinnhandrit; valda því þau atvik að þegar eg fyrir nokkurum arum … skrifaði upp hinn nafnfræga Reykholtskirkjumáldaga, sem finnst á skinni í skjalasafninu í Laugarnesi, þá var herra Jón Sigurðsson … mér hjálplegur í því, og eg verð að játa, að án aðstoðar hans myndi eg ekki hafa verið fær um með öruggri vissu að lesa skinnblað þetta því að nokkur hluti blaðsins, þ.e. 14.-26. lína (að báðum meðtöldum) er, að nokkuru vegna eðlis bleksins, að nokkuru af ítrekuðum tilraunum til að lesa blaðið, orðinn svo daufur, að einungis hvassasta sjón þess manns, sem mikla æfing hefir í handritum, fær greint stafagerðina víða; af því er það, að síðari uppskrift á skinni (sennilega frá 17. öld), sem finna má meðal skjala Reykholtskirkju, hefir alveg fellt út þenna hluta frumritsins. Þessa fimi hafði herra Jón Sigurðsson öðlast með því, að leiðbeiningu biskups, að rita upp ýmis frumskjöl á skinni, þau er varðveitt eru í skjalasafninu.“