Hrafnseyri og Arnarfjörður.

Myndasafn

Arnarfjörður

Á prestssetrinu Hrafnseyri í Auðkúluhreppi við Arnarfjörð fæddist 17. júní 1811 drengur og var hann frumburður séra Sigurðar Jónssonar aðstoðarprests þar og konu hans Þórdísar Jónsdóttur. Litli drengurinn var  skírður Jón, eftir afa sínum, séra Jóni Ásgeirssyni í Holti í Önundarfirði. Hinn afinn, séra Jón Sigurðsson var prestur á Hrafnseyri.

Íslendingar voru þá bláfátæk þjóð en Arnfirðingar, sem töldu um 700 manns, voru í fararbroddi nýrra atvinnuhátta, svo sem veiða á þilskipum, og ekki eins afskekktir og ætla mætti. Þar bjó harðgert og harðsækið fólk. Á prestssetrinu Hrafnseyri í Auðkúluhreppi sveif upplýsingastefna og skynsemishyggja 18. aldar yfir vötnum. Þar hafði séra Jón Sigurðsson reist nýstárlegan bæ, svokallaðan burstabæ, en þeir voru nú að byrja að ryðja sér til rúms á Íslandi. En erfitt var í ári um þessar mundir vegna harðinda og stopulla siglinga af völdum styrjalda í Evrópu. 

Litlum sögum fer af Jóni æsku en hann mun hafa haft gott sjálfstraust úr foreldragarði og þótti prúður og bráðger. Hann fékk snemma fallega rithönd svo að hann var fenginn til að skrifa upp almanök fyrir sveitunga sína og lét hann þá fylgja með vísur með sem hann hafði sjálfur ort. Yngri systkini hans voru Jens, fæddur 1813, sem síðar varð rektor Lærða skólans í Reykjavík og Margrét, fædd 1816, síðar húsfreyja á Steinanesi í Arnarfirði.

Þrettán ára gamall fékk Jón leyfi til að róa á árabát Hrafnseyrarklerks eina vetrarvertíð frá Verdölum, yst við Arnarfjörð sunnanverðan. Hann átti að fá hálfan hlut en fékk því framgengt með harðfylgi að fá að róa sem fullgildur háseti og kom þar í ljós kappgirni hans. Ári seinna fermdist hann með umsögninni „vel læs, kunnandi og frómlyndur“.

Ekki sendi séra Sigurður á Hrafnseyri Jón son sinn í Bessastaðaskóla eins og eðlilegt hefði mátt vera um svo efnilegan pilt. Þess í stað ákvað hann að kenna honum sjálfur til stúdentsprófs og hafa vafalaust ráðið því búhyggindi séra Sigurðar sem ekki var ríkur maður. En með þessu ráðslagi fór Jón á mis við samfélag skólapilta. Námsefnið heima á Hrafnseyri var nokkurn veginn það sama og kennt var í Bessastaðaskóla og mest áhersla lögð á latínu. Augljóst er að Jón Sigurðsson var bókaormur á unga aldri og mjög fróðleiksfús. Hann eignaðist hluta úr jörðinni Gljúfurá og byggðist sá eignarhlutur á gjöf frá afa hans og alnafna. Þessi litla jarðareign varð seinna grundvöllur að þingmennsku Jóns fyrir Ísafjarðarsýslu en þá var eign skilyrði fyrir kjörgengi til þings.