Ný sýning á Hrafnseyri

Á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar við Arnarfjörð er allstórt hús. Það var byggt sem prestsetur og skólahús um 1960 og áföst því er minningarkapella byggð síðar. Hún var vígð 3. ágúst 1980 og um leið var opnuð í tveimur herbergjum sýningin Safn Jóns Sigurðssonar. Höfundar hennar voru Einar Laxness sagnfræðingur og Steinþór Sigurðsson listmálari.

Þegar farið var að huga að 200 ára minningu Jóns Sigurðssonar var ákveðið að gera ákveðnar breytingar á Hrafnseyri; taka neðri hæðina undir nýja sýningu og efna til samkeppni um hönnun hennar. Átta aðilum sem höfðu reynslu af hönnun sýninga var gefinn kostur á að taka þátt í samkeppninni. Þeir voru þessir: Axel Hallkell Jóhannesson hönnuður, Árni Páll Jóhannsson hönnuður, Basalt arkitektar, Fíton auglýsingastofa, Ólafur J. Engilbertsson hönnuður/Sögumiðlun ehf, Snorri Freyr Hilmarsson hönnuður, Yrki arkitektar og Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir hönnuður.

Samkeppnisgögn voru afhent 10. febrúar 2010 og skilafrestur ákveðinn tíu vikur. Fimm aðilar sögðu sig frá keppni en þrír skiluðu fullbúnum tillögum. Skilafrestur var að lokum lengdur um tíu daga, til 26. apríl. Nefndin greiddi kr. 200.000.- fyrir hverja innsenda tillögu og var samið við sigurvegara að fullhanna sýninguna.

Formaður dómnefndar var Sigrún Magnúsdóttir frá undirbúningsnefndinni og auk hennar Bryndís Sverrisdóttir frá Þjóðminjasafni, Guðjón Friðriksson sagnfræðingur, Hringur Hafsteinsson frá Gagarín og Valdimar J. Halldórsson frá Hrafnseyrarnefnd. Trúnaðarmaður dómnefndar var Björn G. Björnsson, verkefnisstjóri.

Dómnefnd valdi tillöguna „Tímanna rás“ sem þótti bæði nýstárleg og spennandi. Höfundar tillögunnar reyndust vera Basalt arkitektar: Ene Cordt Andersen arkitekt, Hallmar Sigurðsson menningarstjórnunarfræðingur, Marcos Zotes-Lópes arkitekt, Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt og Þórhalldur Sigurðsson arkitekt. Guðjón L. Sigurðsson veitti lýsingaráðgjöf. Basalt arkitektar fá það viðfangsefni að fullgera tillöguna í samvinnu við undirbúningsnefnd, verkefnisstjóra og Hornsteina arkitekta sem hanna breytingar á húsakynnum á Hrafnseyri.

Úrslit í samkeppninni voru tilkynnt í Ráðhúsi Reykjavíkur 17. júní 2010 og allar innsendar tillögur eru þar til sýnis næstu daga.

Umsagnir dómnefndar (pdf, 37kb)

Vinningstillagan Tímanna rás (pdf)

Tillaga Fíton auglýsingastofu, merkt Rafnseyri (pdf)

Tillaga Ólafs J. Egilbertssonar/Sögumiðlunar, merkt Jafnakollur (pdf)

Samkeppni um sýningu á Hrafnseyri. Vinningstillagan "Tímanna rás". Höfundar: Basalt arkitektar ehf.