Tóbakshorn Jóns Sigurðssonar.

Myndasafn

Minjagripir og handverk

Samkeppni um minjagripi og handverk til minningar um Jón Sigurðsson

NIÐURSTAÐA DÓMNEFNDAR – ÚRSLIT
Samkeppninni var hleypt af stokkunum 17. júní 2010 og skilafrestur var til hádegis mánudaginn 20. september s.l. Alls barst 21 innsending.

Dómnefnd kom saman fimmtudaginn 21. október kl. 14:00. Allir dómnefndarmenn voru mættir; Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, Halla Helgadóttir frá Hönnunarmiðstöð Íslands, Sunneva Hafsteinsdóttir frá Handverki og hönnun, Jóhannes Þórðarson frá Listaháskóla Íslands, Björn G. Björnsson frá afmælisnefnd Jóns Sigurðssonar. Sigrún Ólafsdóttir trúnaðarmaður keppninnar var viðstödd og opnaði umslögin í upphafi fundar.

Dómnefnd þótti almennt að tillögurnar skorti bæði frumleika og dýpt. Engin tillaga þótti vera framúrskarandi góð og verðskulda verðlaun. Í staðinn var ákveðið að veita þremur tillögum styrki til frekari þróunar, en það voru heiðurspenni merktur „thjod“, minnisbók merkt „02081529“ og steinn með áletruninni Óskabarn merktur „skabar“.

Ákveðið var að veita hverjum höfundi styrk að upphæð kr. 133.333.- til að þróa tillögu sína áfram. Höfundar eru hvattir til að leita eftir faglegri ráðgjöf og vanda efnisval og útfærslu.

Athugasemdir við heiðurspenna voru þær að athuga þyrfti vel efnisval, að mynstur sé íslenskt og að hæpið sé að nota núverandi fánaliti þar sem íslenskur fáni var ekki til á tíma Jóns Sigurðssonar. Hugmyndin um klassískan blekpenna tengist hins vegar vel lífsstarfi Jóns Sigurðssonar.

Athugasemdir við minnisbók voru hvatning um vandað handbragð á bandi, vel valinn pappír og ekki síst að höfundur fái sagnfræðilega ráðgjöf um tilvitnanir í bókina.

Höfundarnir mega geta þess í kynningu eða á umbúðum að tillaga þeirra hafi hlotið viðurkenningu í almennri samkeppni um minjagripi á vegum afmælisnefndar Jóns Sigurðssonar forseta.

Öllum er þökkuð þátttaka í  samkeppninni.

Heiðurspenni (pdf)    Minnisbók (pdf)    Óskabarn (pdf)