Dagskrá

Langstærsta verkefni minningarársins er endurnýjun safns Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Þar hefur sýningarrýmið verið stækkað verulega og ný sýning hönnuð frá grunni. Aðrar sýningar eru minni í sniðum og unnar í samstarfi við aðra. Meðal verkefna var gerð vandaðs margmiðlunarefnis og stafræn endurgerð skjallegra gagna Jóns Sigurðssonar til útgáfu á netinu.17.06.2011

Líf í þágu þjóðar

Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri

Ný sýning í Safni Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri var opnuð á Hrafnseyrarhátíð 17. júní 2011. Um er að ræða nýstárlega og spennandi sýning um líf og starf Jóns, einkahagi, vísindastörf og stjórnmálaþátttöku. Nýtt margmiðlunarefni var einnig opnað hér á vefnum við sama tækifæri.

Hér á vefnum má sjá myndir frá undirbúningi sýningarinnar og framkvæmdum utandyra

Sýningarskrána Líf í þágu þjóðar má nálgast hér í PDF-útgáfu.

 Lítil sýning um Jón Sigurðsson hefur verið á Hrafnseyri síðan 1980. Fljótlega tók undirbúningsnefndin ákvörðun um að leggja aðaláherslu á uppbyggingu á Hrafnseyri og nýja sýningu þar. Hornsteinum arkitektum var falið að gera tillögur um breytingar á húsnæði í samráði við Hrafnseyrarnefnd og byggingadeild forsætisráðuneytisins. Ákveðið var að taka alla neðri hæð hússins á Hrafnseyri undir nýja sýningu.

Efnt var til lokaðrar samkeppni um hugmyndir að nýrri sýningu. Átta fengu boð um þátttöku: Axel Hallkell Jóhannesson hönnuður, Árni Páll Jóhannsson hönnuður, Basalt arkitektar, Fíton auglýsingastofa, Ólafur J. Engilbertsson hönnuður/Sögumiðlun ehf, Snorri Freyr Hilmarsson hönnuður, Yrki arkitektar og Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir hönnuður.

Samkeppnisgögn voru afhent 10. febrúar 2010 og skilafrestur var til 26. apríl. Dómnefnd valdi tillöguna „Tímanna rás“ sem þótti bæði nýstárleg og spennandi. Höfundar tillögunnar reyndust vera Basalt arkitektar: Ene Cordt Andersen arkitekt, Hallmar Sigurðsson menningarstjórnunarfræðingur, Marcos Zotes-Lópes arkitekt, Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt og Þórhallur Sigurðsson arkitekt. Guðjón L. Sigurðsson veitti lýsingaráðgjöf. Basalt arkitektar fengu það verkefni að fullhanna sýninguna. Höfundur texta er Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur og rithöfundur. Nýtt og vandað margmiðlunarefni var tekið í notkun á sýningunni, unnið af Gagarín ehf.

Unnið í samráði við Hrafnseyrarnefnd.

Til baka